Og þá koma myndir frá þessari ævintýraferð

IMG_1949     IMG_1951       c_documents_and_settings_hafdis_my_documents_my_pictures_aconcagua_img_1973.jpg      IMG_1974
Við upphaf ferðar         Borðað með                       Við Horcones Lake            Séð til Aconcagua
                                         fararstjóra í Mendoza

  IMG_1987     IMG_1997      IMG_2003     IMG_2013      
  Á göngu við                   Á göngu við                Í Confluencia                    Á göngu við Confluencia
  Plaza Francia                Plaza Francia

IMG_2021     IMG_2024      IMG_2036      IMG_2043
Í Plaza de Mulas             Við Plaza de Mulas          Plaza Canada búðir          Plaza de Mulas búðir

IMG_2053      IMG_2056      IMG_2078      IMG_2083
Séð yfir frá Coleru         Séð yfir frá Coleru           Ólafur Áki í               Óli, Ingólfur og Bragi
                                                                                            6.600 m.hæð                     í 6.600 m. hæð

IMG_2084      IMG_2087
Kalt í 6.600 m. hæð      Í roki í Coleru 6.000 m. hæð

 


Aconcagua vísur

Hér koma á eftir vísur sem Bragi samdi í ferðinni.

Aconcagua vísur

Örkum hérna upp í mót,
Óli, Golli og Bragi.
Einnig Sigga orkusnót
og allt í fína lagi.

Prílum við í Paradís,
Prúð og sæl um slóðir kunnar
Gnæfa klettar, krýndir ís,
kynjamyndir náttúrunnar.

Við oss blasir fjallið frítt,
fönnum skrýtt – það togar.
og við öndum ótt og títt
af oss svitinn bogar.

Frár og mesti fjörkálfur
flytur grín úr sínum munni.
Eftirherman Ingólfur
uppi heldur stemmingunni.

Fjöllin heilla falleg öll –
fjöll eru hennar ær og kýr-
Sigga Lóa sjarmatröll
seiglu og krafti yfir býr.

Óli Bæjó ýmsan tind
áður klifið hefur,
eins og hann hafi enga þind;
af sér mikið gefur.

Síðast nefni, sístan þó,
sjálfan vísnarefinn.
Enda komið alveg nóg
og hann Bragi uppgefinn.

BR


Kveðja frá ferðalöngunum okkar

Eftir um 9 daga göngu með hæðaraðlögun og flutningi vista, komum við í búðir í um 6000 m hæð sem kallast Colera.  Colera er um 100 m hærri en búðir sem algengast er að nota á þessu svæði og nefnast Berlin.  Colera er síðasti áfanginn fyrir lokauppgönguna.  Skv. áætlun áttum við að halda á tind Aconcagua föstudaginn 16. janúar.  Veðurspáin fyrir þann dag var mjög góð og við meira en tilbúnir í uppgönguna, en spáin var tvísýn fyrir helgina.  Að kvöldi 15. janúar tilkynnti fararstjórinn hins vegar að betra væri að fresta uppgöngu til 17. janúar.  Við gátum lítið sagt, enda hefur hann langa reynslu á svæðinu og hefur farið alls 12 sinnum á fjallið.  Klukkan 4:30 þann 17. janúar var snjó mokað frá dyrum tjaldsins, snjór settur í pott og eldaður dýrindis hafragrautur.  Um kl. 6:00 var haldið á fjallið.  Nokkuð stífur vindur var fyrst um sinn, sem ekki kom að sök.  Þegar við áttum um 350 m eftir á tindinn (komnir í um 6600 m hæð) var kominn stormur og blindbylur.  Á þessum tímapunkti var ákveðið að snúa við, enda vorum við á svæði þar sem eitt feilspor gæti kostað lífið. Þetta var nokkuð erfið ákvörðun, enda allir í góðu formi bæði andlega og líkamlega. Veðurguðirnir voru búnir að taka ákvörðun fyrir okkur og ekki skynsamlegt að deila við þá. 
 
Þegar komið var niður í Colera búðirnar (6000 m) síðar um daginn fór restin af deginum í að halda tjöldunum niðri, enda var veðrið mjög slæmt.  Þegar við vorum að berjast við tjöldin blasti við okkur dalurinn 3-4000 m neðar þar sem veðrið virtist vera hlýtt og gott.  Við ræddum þá okkar á milli hvað við værum eiginlega að gera.  Við komumst fjótlega að þeirri niðurstöðu að þetta væru nýju útrásarvíkingarnir.
 
Að morgni 18. janúar vöknuðum við um kl. 8:00, hituðum upp súpu frá kvöldinu áður og borðuðum með bestu lyst í morgunmat.  Klukkutíma síðar héldum við af stað niður til Horcones Lake, þar sem gangan hófst fyrir 11 dögum.  Við lækkuðum okkur þann dag um 3200 m og gengum þá rúma 30 km.  Við komum á hótel í Mendoza upp úr miðnætti, þreyttir, skítugir og skeggjaðir.  Við leggjum af stað heim þann 21. janúar og lendum í Keflavík 23. janúar.
 
Kæru vinir, þetta er búin að vera ótrúleg lífsreynsla fyrir okkur.  Um leið og við óskum ykkur gleðilegs nýs árs, viljum við þakka ykkur fyrir allar góðu óskirnar og fyrir að fylgjast með okkur í þessari ævintýraferð, sem mun marka djúp spor í okkar lífshlaupi.

Með kveðju,

Bragi, Ingólfur, Sigga Lóa og Ólafur Áki
 
P.s. Við læðum líklega inn myndum í næstu viku.


Ferðalangarnir senda allir bestu kveðjur

Þeir hafa notið ferðarinnar til hins ítrasta, enda umhverfið stórbrotið og fjallasýnin síbreytileg.  Sól hefur skinið á hverjum degi og einstaka sinnum hefur örlað á snjókomu.  Frost hefur verið á hverri nóttu á fjallinu og nístingskalt í efstu búðum, en dúnpokarnir standast vel.  Stundum hefur verið býsna hvasst og það hafa komið nætur þar sem við héldum ad tjöldin tækjust á loft ásamt öllu innvolsi.  Hér er ekki hægt að reka neina tjaldhæla í jörð svo okkur var strax kennd sú kúnst að tjalda með því að vefja stögunum utan um grjót.
 
Eins og áður hefur komið fram var okkur eindregið ráðið frá því að taka Diamox, sem er glákulyf og hefur að auki gefið góða raun við hæðaaðlögun með því að auka súrefnisupptöku í blóðinu. Sérfræðingar í háfjallaveiki hér telja að það hylji einkenni, sem annars þyrfti að bregðast við og vatnslosandi eiginleikar þess hafa leitt til alvarlegrar þornunar, þrátt fyrir viðleitni fólks við að neyta mikils vökva, en ráðlögð neysla á vökva á dag eru 4 til 6 lítrar.  Dagskráin okkar gerði líka ráð fyrir að við myndum smám saman aðlagast aukinni hæð án lyfja. Í grunnbúðum (Plaza de Mulas, eða Múlakampi), er lítil heilsugæslustöð þar sem okkur var uppálagt að fara í nákvæma skoðun. Mælingar sýndu að hæðaaðlögun gekk vel hjá körlunum, en hægar fyrir sig hjá Sigríði Lóu,
en hún segir svo frá:  Við komu í grunnbúðir var súrefnismagnið í blóðinu 70% og var komið upp í 78% nokkrum dögum seinna, en það var alltaf vel yfir 80% hjá körlunum. Þar sem
mér leið að öllu leyti vel, gáfu læknarnir mér grænt ljós með að halda áfram. 

Næsta dag gengum við upp í Camp I (4900 m), eða Canada búðirnar. Tveimur dögum áður höfðum við borið vistir þangað upp og þurftum að þessu sinni að bera talsvert meira en við reiknuðum með.

Daginn eftir tók við ganga upp í Camp II (5400 m), sem kallast því fallega nafni Nido de Condores (Hreiður Kondórsins).  Þó gengið væri löturhægt, dróst ég talsvert aftur úr ferðafélögunum, en ég þurfti sífellt að vera að stoppa til þess að ná jafnvægi á andardrátt og hjartslátt og kastaði svo upp rétt fyrir komu á áfangastað. Þegar fararstjóri kannaði ástandið kom í ljós að súrefnismagnið í blóðinu var ískyggilega lágt, eða 43%.  Skilaboð frá lækni í gegnum talstöðina voru skýr, ég ætti strax að koma mér niður í grunnbúðir, sem eru um 1100 m neðar.  Ég þurfti því að búa mig til brottfarar ásamt aðstoðarfararstjóra og átti ekki að taka neitt með mér nema svefnpokann.
 
Ég náði að njóta útsýnis þarna uppi, en búðirnar liggja í skarði þar sem opnaðist alveg ný fjallasýn. Næst hæsta fjall álfunnar blasti við og við horfðum niður á ótal snævi þakta fjallstinda.  Klukkan var að verða 21:00 þegar við lögðum af stað.  Við gengum á broddum fyrsta klukkutímann og gátum farið nokkuð hratt yfir.  Framundan blasti við okkur stórfenglegt sólarlag sem magnaði upp formfagran fjallgarðinn. Það var logn og talsvert frost, himininn var stjörnubjartur og nánast fullt tungl lýsti leið okkar niður í Múlakamp ásamt höfuðljósum. Gangan niður tók um 3 klst.  Þegar þangað var komið tók við heit súpa og læknisskoðun, en búið var að tjalda fyrir okkur.  Mér var svo uppálagt að mæta aftur til skoðunar næsta morgunn.  Súrefnisstatus hafði lítið skánað (50%), en púls, blóðþrýstingur og lungu voru í góðu lagi og mér leið annars alveg ágætlega.  Hugmynd mín var að dvelja í Múlakampi þar til félagar mínir snéru aftur og ganga með þeim restina niður af fjallinu. Læknarnir tóku það ekki í mál og ég fékk far með þyrlu, ásamt öðrum sem svipað var ástatt um, niður að inngangi Aconcagua þjóðgarðsins, sem er í 2700 m hæð.  Síðan tók við akstur um þetta stórkostlega fjalllendi og til Mendoza, þar sem ég bíð þeirra félaganna, Ólafs Áka, Ingólfs og Braga.
 
Farangurinn minn er enn uppi í fjalli en ég fæ hann vonandi á morgunn.  Ég get því ekki sent neinar myndir úr vélinni minni.  Hér er nú yfir 30 stiga hiti og fötin sem ég er með eru þau sem ég var í þegar ég lagði af stað niður af fjallinu í fyrrakvöld ..... dúnúlpa, tvö pör af ullarsokkum, tvöfaldir fjallaskór, ullarnærföt o.fl. og allt svo ógeðslega skítugt!
 
Þegar ég kom til Mendoza í gærkvöldi var heiðskýrt yfir Aconcagua.  Veðurspáin fyrir daginn í dag (16. janúar er góð), en síðan á að þykkna upp. Félagar mínir gistu í Camp III í nótt, sem ýmist nefnast Berlin eða Cholera (6000 m).

Ég ætla að fara út á eftir og horfa þangað upp eftir, því ef allt hefur gengið að óskum, þá ættu þeir að ná toppnum á næsta klukkutímanum.  Ég vona svo sannarlega að þeir séu þarna uppi.  Við hugsum vel til þeirra og bíðum spennt eftir fréttum af lokaáfanganum! ....... Sigga Lóa


15. janúar

colera
Mynd frá Camp Berlin

Í dag er farið uppí Camp III - Refigio Berlin (Camp Colera) í 6000 m. hæð.  


13. og 14. janúar

CARRIED 
Á svæðinu

Í gær 13. janúar var hvíldardagur og síðan fært sig uppí Camp I - Plaza de Canada í 5.050 m. hæð. Í dag 14. janúar er svo færsla uppí Camp II - Nido de Condores í 5.550 m. hæð.

condoresbudir                           solseturicondores
Búðirnar í Nido                               Sólsetur í búðunum
de Condores

 


Fréttir....

Fréttir bárust af ferðalöngunum í gær. Smile

Þau gengu uppí Camp I, Plaza Canada, uppí 5100 m. hæð í gær, sunnudag, og báru þangað upp mat fyrir næstu daga.  Þau gengu síðan aftur niður í Plaza de Mulas í 4400 m. hæð. Þau taka engin hæðarlyf, læknarnir mæla á móti því.  En þau eru öll hress og kát og allt gengur vel.

Bragi orti vísu um Ólaf Áka:

Óli bæjó ýmsan tind
áður klifið hefur
eins og hann hafi enga þind
af sér mikið gefur.

Í dag 12. janúar er undirbúningur fyrir uppgönguna.  Gengið verður um svæðið og undirbúið sig fyrir áframhaldandi göngu.

Aconcagua_NW_Routes

 


11. janúar 2009

Við höfum ekki fengið neinar nýjar fréttir af ferðalöngunum okkar, en vonumst til að heyra frá þeim fljótlega.

Í dag var áætlað að farangur yrði borinn upp í Camp I, Plaza Canada í 5.050 m. hæð. Ef allt gengur vel á að halda áfram uppí Hreiður Kondórsins, Camp II (Nido de Condores) sem er í 5.550 m. hæð. Ganga síðan aftur niður í Plaza de Mulas. Í þessari hæð er farið að kólna verulega.

campeitt
Búðir í Camp I,
Plaza Canada

CAMPi
Tekin úr Camp I

campII
Kvöld í Camp II

condores
Condores,
Camp II

 


10. janúar 2009

Í dag er hvíldardagur í Plaza de Mulas.  Tíminn verður notaður til að ganga um svæðið og venja sig við hæðina.

Ég set hér með nokkrar myndir sem teknar eru á og við Plaza de Mulas.

Aconcagua066
Múldýrin á ferð

Aconcagua074
Í Plaza de Mulas

Aconcagua282
Horft niður að
Plaza de Mulas

Sögulegar heimildir: 
Fyrstu öruggu heimildir um að menn hafi náð toppi Aconcagua ná allt aftur til 1897 og var það Svisslendingurinn Mathias Zurbriggen sem því náði 14. janúar það ár, nokkrum dögum seinna náðu 2 félagar hans toppnum líka. Þeir fóru upp Norð-Vestur hliðina þá sömu og félagarnir reyna núna við. Fyrsta konan til að ná toppnum var hin franska Adrienne Bance sem það gerði 7. mars 1940.
(heimild tekin af http://aconcagua08.blog.is:80/blog/aconcagua07/?offset=20 )

 


9. janúar

1895e
Plaza de Mulas

Í dag er áætlað að gengið verði upp á Múlasnatorg (Plaza de Mulas) sem er í 4.250 m. hæð.  Um er að ræða búðir sem komið er fyrir í rúma tvo mánuði á ári á meðan fært er á fjallið.

acc-mulas


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband