Ferðalangarnir senda allir bestu kveðjur

Þeir hafa notið ferðarinnar til hins ítrasta, enda umhverfið stórbrotið og fjallasýnin síbreytileg.  Sól hefur skinið á hverjum degi og einstaka sinnum hefur örlað á snjókomu.  Frost hefur verið á hverri nóttu á fjallinu og nístingskalt í efstu búðum, en dúnpokarnir standast vel.  Stundum hefur verið býsna hvasst og það hafa komið nætur þar sem við héldum ad tjöldin tækjust á loft ásamt öllu innvolsi.  Hér er ekki hægt að reka neina tjaldhæla í jörð svo okkur var strax kennd sú kúnst að tjalda með því að vefja stögunum utan um grjót.
 
Eins og áður hefur komið fram var okkur eindregið ráðið frá því að taka Diamox, sem er glákulyf og hefur að auki gefið góða raun við hæðaaðlögun með því að auka súrefnisupptöku í blóðinu. Sérfræðingar í háfjallaveiki hér telja að það hylji einkenni, sem annars þyrfti að bregðast við og vatnslosandi eiginleikar þess hafa leitt til alvarlegrar þornunar, þrátt fyrir viðleitni fólks við að neyta mikils vökva, en ráðlögð neysla á vökva á dag eru 4 til 6 lítrar.  Dagskráin okkar gerði líka ráð fyrir að við myndum smám saman aðlagast aukinni hæð án lyfja. Í grunnbúðum (Plaza de Mulas, eða Múlakampi), er lítil heilsugæslustöð þar sem okkur var uppálagt að fara í nákvæma skoðun. Mælingar sýndu að hæðaaðlögun gekk vel hjá körlunum, en hægar fyrir sig hjá Sigríði Lóu,
en hún segir svo frá:  Við komu í grunnbúðir var súrefnismagnið í blóðinu 70% og var komið upp í 78% nokkrum dögum seinna, en það var alltaf vel yfir 80% hjá körlunum. Þar sem
mér leið að öllu leyti vel, gáfu læknarnir mér grænt ljós með að halda áfram. 

Næsta dag gengum við upp í Camp I (4900 m), eða Canada búðirnar. Tveimur dögum áður höfðum við borið vistir þangað upp og þurftum að þessu sinni að bera talsvert meira en við reiknuðum með.

Daginn eftir tók við ganga upp í Camp II (5400 m), sem kallast því fallega nafni Nido de Condores (Hreiður Kondórsins).  Þó gengið væri löturhægt, dróst ég talsvert aftur úr ferðafélögunum, en ég þurfti sífellt að vera að stoppa til þess að ná jafnvægi á andardrátt og hjartslátt og kastaði svo upp rétt fyrir komu á áfangastað. Þegar fararstjóri kannaði ástandið kom í ljós að súrefnismagnið í blóðinu var ískyggilega lágt, eða 43%.  Skilaboð frá lækni í gegnum talstöðina voru skýr, ég ætti strax að koma mér niður í grunnbúðir, sem eru um 1100 m neðar.  Ég þurfti því að búa mig til brottfarar ásamt aðstoðarfararstjóra og átti ekki að taka neitt með mér nema svefnpokann.
 
Ég náði að njóta útsýnis þarna uppi, en búðirnar liggja í skarði þar sem opnaðist alveg ný fjallasýn. Næst hæsta fjall álfunnar blasti við og við horfðum niður á ótal snævi þakta fjallstinda.  Klukkan var að verða 21:00 þegar við lögðum af stað.  Við gengum á broddum fyrsta klukkutímann og gátum farið nokkuð hratt yfir.  Framundan blasti við okkur stórfenglegt sólarlag sem magnaði upp formfagran fjallgarðinn. Það var logn og talsvert frost, himininn var stjörnubjartur og nánast fullt tungl lýsti leið okkar niður í Múlakamp ásamt höfuðljósum. Gangan niður tók um 3 klst.  Þegar þangað var komið tók við heit súpa og læknisskoðun, en búið var að tjalda fyrir okkur.  Mér var svo uppálagt að mæta aftur til skoðunar næsta morgunn.  Súrefnisstatus hafði lítið skánað (50%), en púls, blóðþrýstingur og lungu voru í góðu lagi og mér leið annars alveg ágætlega.  Hugmynd mín var að dvelja í Múlakampi þar til félagar mínir snéru aftur og ganga með þeim restina niður af fjallinu. Læknarnir tóku það ekki í mál og ég fékk far með þyrlu, ásamt öðrum sem svipað var ástatt um, niður að inngangi Aconcagua þjóðgarðsins, sem er í 2700 m hæð.  Síðan tók við akstur um þetta stórkostlega fjalllendi og til Mendoza, þar sem ég bíð þeirra félaganna, Ólafs Áka, Ingólfs og Braga.
 
Farangurinn minn er enn uppi í fjalli en ég fæ hann vonandi á morgunn.  Ég get því ekki sent neinar myndir úr vélinni minni.  Hér er nú yfir 30 stiga hiti og fötin sem ég er með eru þau sem ég var í þegar ég lagði af stað niður af fjallinu í fyrrakvöld ..... dúnúlpa, tvö pör af ullarsokkum, tvöfaldir fjallaskór, ullarnærföt o.fl. og allt svo ógeðslega skítugt!
 
Þegar ég kom til Mendoza í gærkvöldi var heiðskýrt yfir Aconcagua.  Veðurspáin fyrir daginn í dag (16. janúar er góð), en síðan á að þykkna upp. Félagar mínir gistu í Camp III í nótt, sem ýmist nefnast Berlin eða Cholera (6000 m).

Ég ætla að fara út á eftir og horfa þangað upp eftir, því ef allt hefur gengið að óskum, þá ættu þeir að ná toppnum á næsta klukkutímanum.  Ég vona svo sannarlega að þeir séu þarna uppi.  Við hugsum vel til þeirra og bíðum spennt eftir fréttum af lokaáfanganum! ....... Sigga Lóa


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Sigga Lóa. Gott að heyra af ykkur og vita að öllum líður vel og að þú hafir þrátt fyrir allt notið ferðarinnar. Svo eru það allir topparnir sem þú hefur og átt vafalaust eftir að ná.

Vona að gangi vel já félögunum með að ná áfanganum það verður spennandi að heyra. Heilsist ykkur öllum vel, kveðja Sigrún (systir).

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 20:09

2 identicon

Frábærar fréttir af ykkur ferðalöngum. Vonandi náið þið toppnum í kvöld.

Bestu kveðjur úr Grafarvogi,

Ingibjörg, Alli, Stefán og Erla

Ingibjörg Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 22:01

3 identicon

Elsku Sigga Lóa. Leiðinlegt að heyra að þú skyldir þurfa frá að hverfa, en þetta hlýtur samt að hafa verið ótrúlegt ævintýri.  Mér finnst mjög skrýtið að þið skylduð ekki vera látin taka Diamox, ég veit að það hjálpaði fólki verulega á Kilimanjaro, en þeir hljóta að hafa eitthvað fyrir sér í þessu.
Ég er búin að hugsa til ykkar í allan dag.  Vonandi komast félagarnir alla leið.  Bestu kveðjur til ykkar allra. Hjördís

Hjördís Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 22:33

4 identicon

Bestu kveðjur

Guðný Stefáns.

Guðný Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 22:40

5 identicon

Sæl Sigga Lóa.

Það gengur betur næst ! ! !

En auðvitað hefur þetta verið mikið ævintýri. Skila kveðju frá þér á ársfundinn á eftir. Ég fékk þann heiður að kynna starfið framundan í fjarveru þinni.

Njóttu dvalarinnar og sjáumst hressar, Jónína.

Jónína Pálsdóttir (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 10:47

6 identicon

Kæra Sigga Lóa ,gott að vita af þér og allt sé í lagi .Vona að allt gangi vel hjá hinum sendi ykkur góða strauma og hugsun.

kveðja Auður

auður sveinsdóttir (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 17:34

7 identicon

Sigga Lóa og ferðalangar! Bestu óskir til ykkar allra, á toppnum eða ekki-skiptir ekki máli,upp fóru þið

kveðja AE

Agnes Elídóttir (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 23:05

8 identicon

Heill og sæll Bragi.

Það er í senn heillandi og spennandi að lesa ferðasöguna ykkar. Ég hlakka til að heyra meira síðar. Gangi ykkur allt í haginn.

Bestu kveðjur

Skarphéðinn

Skarphéðinn P. Óskarsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 11:13

9 identicon

Heil og sæl, ég er dóttir hans Ingólfs sem býr í Argentínu sem skiptinemi, er nýkomin til Mendoza með mömmu og litlu systur og var að hringja í fyrirtækið sem sér um leiðangurinn og ferðalangana til að spyrja frétta og þetta er það sem að þau sögðu mér:

 Það er allt í fína lagi með alla, heilbrigðir og í góðu formi. Þeir náðu tindinum á föstudaginn 16.jan og hún sagði að skyggnið og veðrið hafi verið tilvalið. Þeir eru núna á leið niður fjallið og koma til byggða, það er að segja Mendoza kl 22 að staðartíma hér annaðkvöld.

 Kveðja til allra heima frá okkur öllum þremur!

 Siddý

Sigurbjörg Alma Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 13:24

10 identicon

Þau hljóta að komast á toppinn því þrjóskasti uppaldi Kongóbúinn er með þeim í ferðinni. Hann gefst aldrey upp ef ég þekki hann rétt.

Jón Halldór Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 13:51

11 identicon

Takk fyrir Siddý, ég var að fara á límingunum að fá engar fréttir af þeim.  Frábært að heyra að þeir hafi allir náð tindinum, góður árangur að 75% fari á toppinn. Bestu kveðjur Hjördís

Hjördís Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 19:27

12 identicon

Takk Siddý! Gott að heyra frá þeim og að allt gekk vel. Glæsilegt afrek.... Bestu kveðjur til Argentínu frá Stefáni og Erlu

Erla (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 20:27

13 identicon

Leitt ad thú komst ekki á toppinn Sigga Lòa en svona er thad nú.   Thad er gódur árangur ad 3 komust upp af 4.    ég er sammála laeknunum og leidsogumonnunum med haedarlyfin.   Best ad gefa sér bara nógan tíma í thetta fjallapríl :)

Mig kítlar nú enn mikid ad skella mér nidur til Mendóza og reyna vid fjallid :)  

kaer kvedja Saemundur Thór Sigurdsson. 

Saemi (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 00:50

14 identicon

Sæl Sigga Lóa og félagar

Þetta er ekki neitt smá ævintýri sem þið eruð að upplifa en ég verð samt að segja að maður á alltaf að hlusta á líkamann í svona aðstæðum ég veit að það eru mörg önnur fjöll sem bíða eftir þér Sigga Lóa. Til hamingju öll með þennan frábæra árangur. Njótið áfram dvalarinnar Kveðja Sóley

soley (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 09:04

15 identicon

 gott að heyra fréttirnar af hinum og allt er í góðu hjá öllum

Bestu kveðjur

Auður

audur sveinsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband